(Chemical Dependency)
Efnafíkn er samheiti yfir hvers kyns fíkn í efni hvort
heldur það rennur, rúllar eða rýkur; það
er að segja hvort sem það er í fljótandi formi,
föstu (töflur) eða loftkenndu. Það nær sem sagt
yfir alkóhólisma, fíkn í hvers kyns vímuefni,
lögleg eða ólögleg, þar með talið það
sem kallað hefur verið læknadóp. Á ensku eru notuð
ýmis orð með mismunandi sérhæfða merkingu: Chemical
Dependency, chemically dependent, chemical dependence, alcoholism, addiction,
substance abuse, substance dependence, drug habit, and drug addiction.
Við lítum svona á málið: Efnafíkn er heiti
á sjúkdómi sem einkennist af fíkn í efni
sem breytir hugarástandi einstaklingsins. Efnafíkn nær bæði
yfir eiturlyfafíkn og alkóhólisma (fíkn í
eiturlyfið alókhól). Einstaklingur sem haldinn er efnafíkn
er ófær um að stöðva drykkju eða að neyta
tiltekins hugarástands-breytandi efnis þrátt fyrir alvarlegar
afleiðingar sem snerta heilsu hans, fjárhag, atvinnu og lagalega,
andlega eða félagslega stöðu. Sjúkdómurinn
lætur sig engu varða um aldur, kynferði, kynþátt,
trúarskoðanir eða efnahagslega stöðu einstaklingsins.
Hann þróast stig af stigi (er prógressífur) og er
ólæknandi (krónískur) og getur leitt til dauða
ef hann er ekki meðhöndlaður.
Þegar einstaklingur er haldin efnafíkn hefur hann ekki lengur
neina valkosti um það hvort hann notar hugarástands-breytandi
efni eða ekki. Hann kann að geta stöðvað neyslu sína
um tíma, en hann mun hverfa í neyslu aftur og aftur þrátt
fyrir rökfestu sína, viljastyrk og góðan ásetning
um annað. Af þessum sökum er efnafíkn (alkóhólismi
og eiturlyfjafíkn) álitinn vera lævís, torskilinn
og öflugur sjúkdómur.
Einkenni efnafíknar koma ýmist samfellt fram eða þau
birtast og hverfa á víxl á mismunandi löngum tímabilum.
Einkennin eru: Skert stjórn á áfengisneyslu og/eða
lyfjaneyslu (samkvæmt lyflseðli eða ólöglegri), hugurinn
er stöðugt bundinn við hið hugarástands-breytandi efni,
neysla fíkniefnisins heldur áfram þrátt fyrir alvarlegar
afleiðingar og að hugsun verði brengluð. Það síðast
nefnda kemur augljósast fram í afneitun.
Við lítum á afneitun sem varnarkerfi sem byggist upp á
nokkum sálfræðilegum ferlum sem miða að því
að draga úr árvekni einstakingsins gagnvart þeirri staðreynd
að áfengis- og vímuefnaneysla sé orsökin fyrir
vandmálum hans frekar en lausnin á þeim. Það er
dæmigert að akólhólisti eða fíkill eru þeir
síðustu til að viðurkenna að þeir eigi við
drykkju- eða neysluvandamál að etja. Afneitunin verður óaðskiljanlegur
hluti af sjúkdómsferlinu í efnafíkn, ein aðalhindrunin
í bataferlinu og þverhnípið sem einstaklingurinn fellur
fram af þegar hann snýr aftur í neyslu.
Afneitunin er sá lævísi, torskildi og öflugi hluti
efnafíknarinnar sem segir fíklinum að hann eigi ekki við
neitt vandamál að stríða. Ef efnafíkill er "í
afneitun" gagnvart alkóhólisma sínum eða annari
fíkn þá getur hann ekki hafið vinnu í bataferli
sínu. Maður getur ekki unnið með vandamál ef maður
viðurkennir ekki tilvist þess.
Þótt ekki sé unnt að lækna sjúkdóminn
er hægt að koma á hann böndum og meðhöndla hann
(hefta virkni hans). Sjúkdómurinn er miklu flóknari en
svo að hann taki einungis til neyslu og misnotkunar á hugarástands-breytandi
efna. Á sama hátt er bataferlið miklu flóknara en svo
að það snúist bara um það að verða edrú.
Því miður trúa margir akóhólistar og fíkniefnaneytendur
því að ef þeir geti bara losað sig við lyfin
eða áfengið þá verði allt í lagi með
þá og þeir geti tekið við stjórninni á
lífi sínu á ný. Afeitrunin ein og sér er
sjaldnast nægileg. Til að viðhalda edrúmennsku verður
einstaklingurinn að gera breytingar á eigin persónu, samskiptum
sínum við aðra og eigin lífsstíl. Þetta tekur
tíma – í raun líta flestir fagaðilar, fíklar
og alkóhólistar í bata svo á að bati úr
efnafíkn sé ævilangt ferli.
Þar eð efnafíkn er fyrst og fremst sjúkdómur,
þá gerir árangursrík meðferð kröfur
um að það sé litið á hana sem slíka.
Í tilviki tvíþættrar truflunar þá kann
að vera að einstaklingurinn hafi byrjað að neyta hugarástands-breytandi
efna til að takast á við eða hylja sársaukann sem
fylgdi geðsjúkdómnum. Efnin sem hann notaði kunna að
hafa valdið tímabundnum létti en gerðu ekkert til að
lagfæra tilfinnigalega vandamálið sem lá til grundvallar
vanlíðaninni. Þetta er kallað sjálfs-lækning
og getur auðveldlega leitt til fíknar. Það læknar
hins vegar ekki fíknina að lækna geðsjúkdóminn.
Þetta eru tveir skýrt afmarkaðir sjúkdómar og
hvor um sig þarfnast sértækrar meðferðar sem tekur
þó tillit til hins sjúkdómsins. Tólf reynsluspor
Dual Recovery Anonymous og sá stuðningur sem fæst á
fundum Dual Recovery Anonymous deilda býður upp á von og stuðning
fyrir þá sem leita hjálpar og heilunar. Von sem hægt
er að trúa á og raunhæfan stuðning fólks
sem á við sama vanda að stríða.
Það er ekki ætlun okkar að gefa fullkomna vísindalega
útlistun á þeim hugtökum sem hér hafa verið
til umfjöllunar. Efnafíkn, fíkn og afneitun eru mjög
flókin fyrirbæri sem ótölulegur fjöldi bóka
hafa verið skrifaðar um og mörg sjónarmið hafa verið
þar á lofti. Upplýsingar þær sem hér
er að finna er almennt yfirlit, einkum ætlaðar leikmönnum
til að útskýra hugtök sem eru notuð í tengslum
við þess vefsíðu og tvíþættum bata þeirra
sjálfra. Einstaklingur er í tvíþættum bata
þegar hann fylgir á virkan hátt bataáætlun
sem tekur til bataþarfa hans. Bataþarfa fyrir efnafíkn sína
annars vegar og hins vegar fyrir geðsjúkdóm sinn.
Athugið: Sumir einstaklingar sem eru í tvíþættum
bata verða að taka lyf sem geta leitt til misnotkunar eða þeir
geta orðið líkamlega háðir þeim. Ef lyfjaskammtur
er rétt stilltur og samviskusamlega farið eftir fyrirmælum
læknis þá geta þessi lyf verið mikilvægasta
tækið við að hafa stjórn á geðrænum
einkennum og geta skipt sköpum um tvíþættan bata og
velferð viðkomandi einstaklings. Við sýnum varkárni
gagnvart lyfjagjöf og skiljum að stundum eru bara ekki önnur úrræði
fyrir hendi. Læknar okkar vita best um það. Við erum strangheiðarleg
um allt það sem snertir tvíþættan sjúkdóm
okkar og neyslusögu við lækna okkar og annað fagfólk
sem kemur að meðferð okkar. Þegar við tökum þessi
lyf í samræmi við fyrirmæli læknis og bataáætlanir
þá munu þau ekki trufla edrúmennsku okkar. Dual Recovery
Anonymous gerir sér grein fyrir því að geðlyf eru
notuð til að hafa stjórn á geðrænum einkennum
og eru ekki tekin til að komast í vímu. Þess vegna er
ekki litið svo á að lyfjafgjöf samkvæmt lyfseðli
læknis sé það sama og bakfall. (see Medications and Recovery) |